Um mig

Ég er fjögurra barna móðir, unnusta, viðskiptafræðingur ásamt því að starfa sem ljós­myndari síðastliðin þrjú ár. Ég hef mest verið að mynda fjölskyldu- og barna­ljósmyndir ásamt því að taka fótboltamyndir fyrir fotbolti.net en samhliða því hef ég verið að taka að mér stærri verkefni fyrir bæði stofnanir og fyrirtæki. Ljósmyndastúdíóið mitt ber nafnið Hvítir Skuggar og er staðsett í Brautarholti 16 í Reykjavík.
Ég er ekki ein þeirra sem fékk áhugann á ljósmyndun út frá því að mynda landslag eða mynda allt sem á vegi þeirra var. Eftir mikla sjálfsskoðun komst ég að því að ég hef allan tímann verið portrett-ljós­myndari í grunninn. Ég sækist í að mynda fólk, fyrir mér eru allir einstakir, og ég elska þegar ég næ fram persónutöfrum hvers og eins.
Fólk er oft stressað fyrir myndatökur, sérstaklega með litlu krílin, en mér þykir best að taka því rólega, leyfa þeim að venjast nýjum stað og oft koma yndislegar myndir á ótrúlegustu augnablikum, en mitt markmið er einmitt að fanga þau og bæta í minningabankann hjá fjölskyldunni.
Ég er mjög opin og á auðvelt með samskipti við fólk, börn og kríli, en ég tel það vera mjög mikilvægt að hafa hæfileika til að nálgast mismunandi persónlukeika þegar kemur að því að mynda. Fólk er líklegast einna mest berskjaldað þegar það stendur fyrir framan myndavélina og ég vil láta þeim líða vel á meðan og draga fram allar þær einstöku hliðar sem hver og einn hefur.
Ég legg mikla áherslu á vönduð vinnubrögð, bæði í mynda­tökunni sjálfri sem og í eftirvinnslunni. Ef áhugi eða spurningar vakna þá endilega hafðu samband við mig í síma 897 0250 eða sendu mér tölvupóst á hulda@huldamargret.is
Ást og friður,
Hulda Margrét

Copyright 2020 © All rights Reserved. Design by Hvítir Skuggar - Hulda Margret photography

Copyright 2020 © All rights Reserved.

Design by Hvítir Skuggar - Hulda Margret photography