Úfinn og rjómasléttur sjór

Sjómennskan hefur tekið miklum stakkaskiptum á 20. öldinni vegna mikillar tæknivæðingar. Áhrif tæknibreytinganna hafa þó haft meiri áhrif á togarana og frystitogarana á meðan smábátarnir, sátu eftir. Vegna afkastagetu togaranna þá er það kvótinn sem stýrir veiðinni. Í dag eiga stóru útgerðirnar mest allan kvótann og þær síðan leigja hann áfram til smábátaeigenda, sanngjarnt… ekki satt? Þrátt fyrir þann mikla mismun sem finnst í kerfinu og þá óvissu sem áhöfn smábáta stendur frammi fyrir á hverjum degi halda þeir ótrauðir áfram. Þeir sækja sjóinn dag eftir dag og eru þeir sannkallaðar hetjur hafins. Ég var svo lánsöm að hitta áhöfnina á smábátnum Von GK175 (skipaskrá er 1762), en hann er minnsti netabátur landsins sem stundar þorskveiðar að sögn skipstjórans. Báturinn er í eigu Sigrúnar Jónínu, stýrimanns, og Guðbjarnar (Guffa), skipstjóra, en hann er jafnframt einn af þremur í áhöfn Vonar. Guffi er með 45 ára reynslu á sjó, en hann fór fyrst út að róa þegar hann var aðeins 15 ára gamall. Óskar, sem er vélstjóri Vonar, hefur róið í samtals 35 ár á hinum ýmsu smábátum. Þriðji og síðasti áhafnarmeðlimurinn er síðan Pétur Færeyingur eins og hann er oft kallaður en hann er stýrimaðurinn um borð með yfir 30 ára starfsreynslu á sjó. Von GK175 er samkvæmt áhöfninni kvótalaus bátur. Eigandinn þarf því að leigja kvóta í hvert sinn sem farið er út að róa. Báturinn er með samning við Fiskmarkaðinn um að kaupa allan fisk sem veiddur er hverju sinni. Ég forvitnaðist um það hjá áhöfninni hvað einkenndi daglegt líf þeirra. Óskar vélstjóri orðaði það svona: „Daglegt líf áhafnarinnar einkennist af leit að endalausum nýjum fiskistöðum til þess að leggja netin og vona að veiðin verði góð. Í hnotskurn, þá er þetta kalt og ógeðslegt og erfiðisvinna. Við vitum aldrei hvað dagurinn ber í skauti sér, hvort eitthvað gerist eða hvernig veiðin verður. Við getum aldrei sagt hvenær við komum heim, á slæmum degi eru við kannski 20 klst. á sjó. Það er einnig mjög mikil óvissa að vita aldrei fyrir víst hvort það sé hægt að róa út á morgun eða á eftir. Það fyrsta sem við gerum alla daga er að hlusta á veðurfréttir – við erum alltaf að skoða veðrið áður en við leggjum af stað í langan veiðitúr.“ Eins og skilja má á orðum Óskars haldast sjómennska og lífshætta í hendur. Ég fékk það eintaka tækifæri að fara með þeim í þeirra fyrsta veiðitúr í vetur og um leið fékk ég að kynnast áhöfninni betur. Við veiddum 1799 kg í þessari ferð sem telst mjög góð veiði fyrir þessa stærð af báti.

Myndirnar endurspegla mína upplifun af netaveiðum við Íslandsstrendur á góðum degi.

Copyright 2020 © All rights Reserved. Design by Hvítir Skuggar - Hulda Margret photography

Copyright 2020 © All rights Reserved.

Design by Hvítir Skuggar - Hulda Margret photography